Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Loksins komin frá Kína... og rest af degi 4 í Kína og heimferðardagur

Það var barasta rosalega erfitt að finna blogg tíma vegna anna og fullt að gerast eftir að ég lenti heima á Íslandi svo skrifin drógust aaaaðeins á langinn.

Held ég hafi skilið við ykkur á laugardagskvöldið og eins og öll önnur kvöld þá teygðist aðeins á seinni hálfleiknum þann daginn líka. Ætlaði rétt að skella mér niður og fá mér snarl á laugardagskvöldinu og var svo ótrúlega „heppin" að rekast á nánast alla Evrópudrengina og ferðinni var heitið á Pizza Hut hinu megin við götuna . Fengum okkur alls konar og svo var það líkt og öll önnur kvöld hótelbarinn sem var orðinn algjörlega „tósted" eftir dvöl okkar þarna þannig að early night... eða ekki.

Tekin U-beygja og skelltum okkur í fótanudd 7 saman og lagt af stað frá hótelinu um kl. 24. Létum taxabílstjórana plata okkur smá og tókum rúnt um borgina og þeir þóttust ekkert skilja eða vita hvert þeir áttu að fara en staðurinn var í ca. 5 mín. akstursfjarlægð frá hótelinu. Við skiptum okkur í 2 herbergi 3+4 og svo var byrjað. Endaði í nuddi all óver og við algjörlega endurnærð eftir það og fengum mat á eftir... einmitt borða máltíð kl. 2:30 að nóttu til eitthvað svo kínverskt. Held ég hafi lagst upp í um 3:30 en þá byrjaði síminn. Eurovision að byrja og dóttirin að tjékka hvort ég væri ekki örugglega að horfa á Eurovision.

Inga: „Mamma ertu sofandi?"  Ég: „öööö ekki lengur eða ekki sofnuð eða eitthvað". 
Sms í ca. 30 mín og svo bara var erfitt að sofna vitandi það að þurfa að vakna eftir 3 klst.

Women in Badminton Forum - dagur

Eftir alltof lítinn svefn var komið að því... Dagskráin áhugaverð þétt setin og svo frábær mæting að við sprengdum utan af okkur fundarsalinn. Nora Perry stjórnaði málþinginu og henni til aðstoðar voru áhugaverð nöfn s.s. Li Lingwei, Emma Mason, Nigel Skelt o.fl.

Á málþinginu voru 2 aðalfyrirlesarar og sá fyrsti Professor Ren Hai forstöðumaður „Centre for Olympic Studies at Beijing University. Fyrirlestur hans var út frá menningarlegum hindrunum kvenna. Honum var tíðrætt um óheilbrigða „barbí" lúkkið og útlitslega öfga sem liggja eingöngu kvenna megin. Virðist litlu sem engu skipta útlit karlmanna. Hefði mátt vera léttari og skemmtilegri fyrirlesturinn sjálfur en efnið áhugavert.

Annar aðalfyrirlesari var Hilary Atkinson sem er fyrst kvenna til að stjórna og halda utan um Badmintonkeppni á Ólympíuleikum frá upphafi. Hilary sagði okkur frá hvernig LOCOG (London Organising Committee of the Olympic and Paralympic Games) hefði tekist að fá konur í öll hlutverk og stöður í undirbúningi Ólympíuleikanna. Þetta er í 3ja sinn sem ég hitti Hilary og alltaf ótrúlega spennandi að heyra um og sjá inn í Ólympíuleika-heiminn. Maður gerir sér aldrei grein fyrir umfangi þessa stórkostlega verkefnis.

Í kjölfarið fylgdi frábær fyrirlestur frá Isabelle Jobard sem er ein 3ja kvenna sem hafa alþjóðleg yfirdómararéttindi frá BWF (Alþjóða Badmintonsambandinu). Isabelle er frá Frakklandi og er ein af þeim frábæru konum sem sitja með mér í „Evrópsku konunefndinni" og einstök kona. Hún gerði grein fyrir stöðu kvenna meðal dómara (yfirdómara,dómara og línudómara) eða „technical officials" eins og það er kallað á enskunni og þá aðallega í Evrópu. Það er hellings gat sem þarf að brúa þar og einmitt eitt af hlutverkum „Konunefndarinnar" að stoppa í það.

Þá var komið að Chipo Zumburani forseta Badmintonsambands Zimbabwe. Fyrirlestur Chipo var eftirminnilegastur af minni hálfu, kannski þar sem við erum að horfa á svo gerólíkar aðstæður miðað við það sem gerist og gengur á Íslandi og í þorra landa í Evrópu. Hún sagði okkur frá því hvernig hún
kynntist badmintoni fyrir 14 árum. Hún hóf nám við einskonar íþróttaskóla þar sem allt gekk út á fótbolta daginn út og inn og erfitt að komast að úti með aðrar íþróttir. Á staðnum var lítið íþróttahús sem var nær ekkert notað. Hún hafði takmarkaðann áhuga á fótbolta og vildi finna sér aðra íþrótt og í einni af vettvangsgöngum hennar þá kom hún að tveimur manneskjum að spila badminton inni í íþróttahúsinu. Hún hugsaði með sér að þetta væri eitthvað sem hún gæti hugsað sér að spila og þar með var hún orðin forfallin badmintonspilari. Á sama tíma var badminton í mikilli lægð í Zimbabwe og lítið sem ekkert um skipulagðar æfingar og keppnir. Með tímanum jókst áhugi hennar svo gríðarlega að hún vildi leggja sitt af mörkum til að koma íþróttinni á framfæri og gefa öðrum tækifæri
á að stunda jafn frábæra íþrótt og badminton er. Chipo er sem áður segir forseti Zimbabwe og auk þess situr hún í stjórn Badmintonsambands Afríku.

Geraldine Brown var 5 fyrirlesarinn á málþinginu og er hún forseti Eyjaálfa eða Badminton Oceania. Hún er nýkjörin forseti  Eyjaálfa og er einnig forseti Badminton Ástralíu og búin að starfa fyrir íþróttina í fjölda ára. Konur hafa spilað stór hlutverk í starfi Eyjaálfa í gegnum árin og fjöldi kvenna gengt byrgðarstöðum þar. Geraldine fór yfir landslagið og hvernig hún teldi að hægt væri að fjölga konum
í stjórnum og nefndum og yfir höfuð í greininni. Hér eru nokkrir punktar; http://www.oceaniabadminton.org/ og á forsíðunni er grein „Celebrate Women Leaders" og þar neðst er linkur á fyrsta konublaðið sem gefið er út hjá Eyjaálfunum.

Síðastar í röðinni vorum við Fiona McKee frá Kanada. Við höfðum ca. 3-5 mínútur hvor til að gera okkar efni skil þar sem við vorum með langan fyrirlestur í fyrra báðar. Fiona tók snögga yfirferð yfir það sem er að gerast hjá Badminton Panam og síðust á dagskrá var mín yfirferð yfir stöðuna í kvennamálum í Evrópu. Þegar þarna var komið við sögu hafði dagskráin farið örlítið fram úr áætlun enda ekki nema von þegar svona margir áhugaverðir fyrirlestar og málefni er í loftinu. Ég tók mína yfirferð á spretthlaupsformi en náði að gera þessu öllu góð skil og var gífurlega ánægð með málþingið í heild sinni og sátt með mína frammistöðu.

Eftir málþingið var þátttakendum boðið í mat og þar gafst tími og tækifæri á að kynnast enn betur og verð ég að segja það þetta er orðið virkilega góð tilbreyting frá því að vera nánast alltaf ein af strákunum. Ekki það að það sé neitt að því en alveg nauðsynlegt að reyna að fá smá kvenleika í þetta allt saman.

Þegar hádegisverðinum lauk upp úr 13:30 þá var komið að úrslitum í Thomas Cup eða HM landsliða og áttust við karlalið Kína og Kóreu. Leikirnir urðu aldrei spennandi þannig lagað en alltaf jafn ótrúlega magnað að upplifa badminton stemminguna í Asíu... allt tryllt og fleiri fleiri þúsund manns að fylgjast með.

Síðasta kvöldið var farið út að borða við hliðina á hótelinu... þannig að ég komast alveg ca. 200m frá hótelinu allan þann tíma sem ég var úti (fyrir utan það að fara með rútu í höllina og fara með leigubíl í nudd). Þetta var skemmtilegur og mjög blandaður hópur, stjórnarmenn frá BWF, BEC, fulltrúar úr konunefndum, fulltrúi spilara og fleiri og fleiri. Við snæddum svona allskonar... marga marga rétti á hringborði með prjónum sem ég hef ekki náð nokkurri einustu færni með og yfirleitt annað hvort farið svöng út eða stungið prjóninum í gegnum bitana þegar þolinmæðin hefur klárast en í þetta skiptið gekk bara alveg ágætlega. Síðasta kvöldinu og fyrri part nætur var eitt sem fyrr á hótelbarnum þar sem hópurinn og fleiri mingluðu og áttum við frábæra stund eins og alltaf.

Það er alltaf erfitt að kveðja liðið. Oft er kvatt með tárum og svo er kvatt með hlátri og góðum minningum en víst er að þessi fjölskylda er á vísum stað hvað sem framtíðin ber í skauti sér. Badmintonliðið er auðvitað "hin" fjölskyldan og eftir svona mikla samveru þar sem allir eru þarna af einni ástæðu... að vinna fyrir badminton, fyrir það sem það hefur ástríðu fyrir og elskar þá skiptir ekki máli hvort þú ert karl eða kona, frá Íslandi, Kenýa, Malasíu, Simbabwe eða hvað... hvort þú spilar inni eða úti, hvort þú sért Ólympíumeistari eða ekki... bara eitt sem skiptir máli BADMINTON.

Heimferðardagur

Dagurinn var tekinn snemma en samt kannski ekki eins snemma og fyrstu áætlanir en fékk skutl um 8:30 út á völl og átti síðan flug um 10:30. Þeir sögðu mér heimamenn (sem gátu klárað sig af enskunni) að ég þyrfti ekki lengri tíma en auðvitað lenti ég í einhverjum snúningum á vellinum... var ekki með rétta áritun og eitthvað ves en völlurinn lítill og þetta gekk allt ljómandi. Fyrsti leggurinn var til Peking og tók 2 tíma og lent 12:35. Eina vandamálið þarna var óstjórnlega miklir verkir, kláði og bólga í bitum og var að því komin að öskra illilega yfir þessu öllu. En...

Öööörlítið meiri afslöppun var á þessari ferð minni í gegnum Peking flugvöllinn en lenti í skondinni uppákomu þó. Þegar við erum að rölta upp ranann þá kemur í ljós að hann er lokaður við endann. Við biðum aðeins eftir því að það yrði opnað en svo fór að renna óþolinmæði á 1st class farþegana og byrjuðu þeir að berja á glerhurðirnar. Út undan mér heyrði ég einhvern gera grín að þeim og skellti pínu upp úr... sjálfsagt ekki mjög dönnuð þar en þegar loksins var opnað fyrir okkur hellti einn af 1st class farþegunum/kínverji sér yfir starfsmanninn og hvílíku lætin. Minn maður (Seattle gaurinn) þessi sem var að gera grín segir um leið og hann gengur fram hjá brjálaða kínverjanum "5 minutes won´t kill you"... og það var eins og við manninn mælt kínverjinn varð geðsjúkbilaður og ætlaðist bara til að "Seattle gaurinn" yrði bara fangelsaður svei mér þá. Einhverra hluta vegna urðum við ódönnaða fólkið samferða langa leið á flugvellinum og ég fékk að heyra ýmislegt miður gott um blessaða kínverjana og lífið í Kína. Það sem sat eftir var kannski spurning "Seattle gaursins"... "Eru kínverjarnir ekki komnir til Íslands??"... "ha hmmm neeeei"... "jæja en þegar þeir koma þá tekur þá ekki nema örskamma stund að yfirtaka landið með þessum 300þ hræðum sem búa þarna... þeir ætla nebblega að ná heimsyfirráðum". Jaaaááá... það fyrsta sem ég hugsaði þarna var ó man Nubo, Grímsstaðir... og svo þurfti ég að kveðja og hverfa inn transfer ganginn.

Þegar þarna var komið var ég algjörlega dauð í fótunum og bitunum. Ég fann næsta WC og lokaði mig þar inni og klæddi mig úr skónum sem voru orðnir inngrónir í fæturna og þá sérstaklega þennan hægri. Var sem betur fer með nýjan alklæðnað í handfarangrinum og galdrakremið (vöðva- og liðagaldur) sem ég ber oft á mig fyrir langt flug og það minnkar bjúgmyndun og bólgur og virkar vel á skordýrabit. Bar smyrslið á fæturnar, fór í flugsokkana og í nýjar brækur og strigaskóna og leið mikið betur á eftir.

Ég var pínu hugsi yfir ræðunni hjá "Seattle gaurnum" og velti þessu öllu saman lengi lengi fyrir mér. Ég vingsaði um flugvöllin í leit að gjöfum fyrir ormana og einhvern minjagrip (versla mér alltaf einhvern minjagrip frá landinu sem ég heimsæki). Nú voru það matarprjónar svona til að viðhalda þeirri list. Eftir svolítið rölt hitti ég danina sem áttu sömu vél og ég verð að segja að það skiptir helling að þekkja einhverja í svona löngu flugi. Nú var flogið í tæpa 10 tíma til Köben og í fyrsta skipti upplifði ég eins konar innilokunarkennd og óþægilega tilfinningu á tímabili. Ekkert obbosslega þægilegt en komst yfir það og naut síðustu 6 tímanna. Þegar við vorum lent þá var kveðjustund með dönunum þar til næst.

1 klst leið á milli lendingar og síðasta leggsins frá Köben til Íslands. Aftur vingsaðist ég pínulítið um völlinn og heyrði nafnið mitt í kallkerfinu og þá var tími til komin til að hraða sér að hliðinu. Lent á Keflavíkurflugvelli um kl. 21. Nú var bara eftir að keyra heim og þegar ég gekk inn um dyrnar í Borgó hringdi vekjaraklukkann sem þýddi það að 24 tímar voru síðan ég vaknaði og lagði af stað út á flugvöll í Wuhan... s.s. 24 tíma ferðalag. Ormarnir biðu spenntir en gjafirnar voru af skornum skammti i þetta skiptið þar sem ferðir út af hótelinu voru engar en þessar elskur kippa sér ekki mikið upp við það þó svo þau hefðu sko alveg þolað eitthvað aðeins meira en best að fá ormaknús og kossa.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband