Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Rest af degi 3 og fyrripartur dagur 4

Þegar ég skildi við ykkur í gær þá var farið að halla verulega á seinni hálfleikinn af deginum en eins og svo oft áður var hann framlengdur endalaust. Ótrúlega gaman að hitta fólk alls staðar úr heiminum með misjöfn vandamál en allir eiga það sameiginlegt að elska og lifa fyrir badminton. Kenýa, Barbados, Serbía, Svíþjóð, Danmörk, Slóvakía, Ástralía og barasta öll hin löndin. Svo fræðist maður um lífið og tilveruna í þessum löndum líka og hér eru nokkrir menn sem eiga nokkrar konur og hreinlega vantar fleiri og svo eru aðrir sem eiga konur sem eru nánast bara lokaðar inni og allt þar á milli.

Líklega fer best á því að gærkvöldið fari ekki á prent enda langt frá því að vera prenthæft en ég gæti svo sem lekið einhverju í góðu tómi svona einn á einn en líklega er þetta eftirminnilegasta og ótrúlegasta kvöldstund sem ég hef upplifað og hef ég þó upplifað ýmislegt skemmtilegt og spennandi í ferðum mínum.

Eftir nánast mínus svefn var sturtað, andlitið sett upp og ársþing Alþjóða Badmintonsambandsins næst á dagskrá og hófst kl. 10. Þetta var frekar lítið þing en fulltrúar 97 þjóða voru viðstaddir ásamt öðrum gestum. Fundurinn fór fram á hefðbundinn hátt en sú breyting varð á þetta árið að þingið fór fram á 5 tungumálum. Mældist þetta vel fyrir og er alveg ótrúlega margir sem tala og skilja ekki ensku þannig að þetta gefur þeim tækifæri á að tjá sig og skilja hvað gengur á.

Eftir þingið var boðið í hádegisverð sem stóð til kl. 15 en þá var kominn tími á að fara í höllina og kíkja á úrslitin nú eða slaka á uppi á herbergi og horfa á úrslitin þar. Ég valdi síðari kostinn þar sem ég átti stefnumót við nokkra aðila eftir fundinn og nú eru einungis 2 örfundir eftir það sem eftir er dagsins og klukkan nú 18:30 og framsaga mín í fyrramálið. Verður án efa frábært og forréttindi að fá að taka þátt í þessu aftur með öllu þessu frábæra fólki.

Jæja þarf að klára daginn og líklega reyna að borða eitthvað og svo er möguleiki á að ég komist aðeins út af hótelinu í kvöld eða amk eftir hádegi á morgun en ég hef ekki rekið tærnar út síðan ég kom á fimmtudaginn sem er auðvitað algjör synd fyrir svona langt ferðalag.

Helv... flugurnar eru brjálaðar í mig og bætist í hraunið á fótum mjög ört. Skileddaekki þar sem ég hef varla séð eina einustu pöddu hérna og ekki einu sinni farið út af hótelinu en greinilega hef ég eitthvað spennandi handa þeim.


Dagur 3 - Málstofur... varúð langt blogg

Farangurinn skilaði sér um kl. 23:00 í gærkvöldi og var mér verulega létt og var farin að bíða eftir að komast úr ferða-svita fötunum eftir öll hlaupin á flugvellinum í Peking. Sem betur fer hef ég aldrei lent í vandræðum með svefn í ferðalögum mínum hingað til Asíu og það var engin breyting á því núna. Ég lagðist á koddann ca. 23:15 (15:15 að íslenskum tíma) með ræmu í tölvunni og man alls ekkert eftir því að hafa séð 1 mínútu af henni. Rankaði við mér einhvern tímann klukkustund síðar og lokaði og slökkti og hélt áfram að sofa. Vaknaði reyndar í kringum 4 leytið leit á klukkuna og lokaði aftur augunum og svaf þangað til vekjarinn vakti mig kl. 7 (23 að íslenskum tíma). Sturta, andlitið sett upp og komin í morgunmat 8:15 og ánægjulegt að hitta marga úr badmintonfjölskyldunni þar...(svona eins og að koma heim ef þið náið tilfinningunni).

Fyrst málstofan hófst kl. 9 á 2. hæð og gestafyrirlesari þar var Chris Guinness forstjóri IMG Media í Asíu sem er að ég held stærsta fyrirtæki í þessum bransa í heiminum. Chris hefur yfir umsjón með öllu áætlanagerð og daglegum rekstri fyrirtækissins. Öll viðskipti sem viðkoma sjónvarpi og fjölmiðlum fara í gegnum hann.

Chris fór yfri markaðssetningu, mikilvægis að hafa gott vörumerki og margt fleira. Það sem stóð upp úr af því sem hann sagði hvað það er mikilvægt að hafa vörumerki fyrir hvern styrkleika móta og að tengja og kynna grasrótinni þessi vörumerki/mót. Það þarf ekki allt að snúast um toppinn ef ekki er hugsað um lægri stigin verða efri stig móta lítið sterkari en þau eru í dag. Alltaf spennandi að heyra um markaðsmálin en oft erfitt að finna réttu leiðina. Hef áður setið nokkra fyrirlestra um markaðsmál badminton og alltof oft er einblýnt á toppinn þ.e. sterkustu mótin og bestu spilarana. Í badmintonheiminum eru fáar þjóðir sem eru þarna en örugglega 90% annarra þjóða eru í basli með markaðssetningu á badminton í sínu landi.

Næst var að velja úr;
Events Strategy 2012-2016
Development Strategy 2012-2016
Olympics Strategy 2012-2016
Para-Badminton Strategy 2016

... og ég valdi fræðslu- og útbreiðslu (Development) málstofuna þar sem David Cabello sem er formaður fræðslunefndar Alþjóða Badmintonsambandsins (BWF) og forseti spænska badmintonsambandsins fór yfir stöðuna en heilmikið hefur gerst í útbreiðslumálum frá því að hann kom inn til BWF. M.a. er búið að gera áætlun í fræðslu- og útbreiðslumálum sem var ekki fyrir hendi árið 2008, búið er að gera fræðslu og kennsluefni fyrir kennara í skólum og nefnist það verkefni „Shuttle Time“ en hugmyndin er að gera badminton skólaíþrótt nr. 1 í heiminum. Einnig er búið að gefa út kennsluefni fyrir þjálfara og leiðbeinendur og er stöðugt verið að endurmeta og tekið við athugasemdum.

Strax er farið að bera á árangri og sem dæmi þá fóru starfsmenn BWF til Marokkó og héldu „Shuttle time“ námskeið þar fyrir þjálfara og leiðbeinendur. Fyrir námskeiðið vissu fæstir hvað badminton var eða allt að því, ekki var hægt að kaupa spaða og áhöld fyrir badminton og engin þekking eða áhugi hjá stjórnmálafólki og lítill áhugi eða kannski lítil þekking hjá þeirra ÍSÍ. Staðan núna er að allir eru að tala um badminton, allir eru að spila badminton í skólum, allir vilja eignast spaða og nú er hægt að kaupa spaða og verið að skoða hvort hægt sé að framleiða spaða í Marokkó. Verður gaman að sjá tölur á næstunni yfir iðkendaaukningu.

Staða og aðstaða til að spila badminton er mjög mismunandi milli landa, heimsálfa og er oft erfitt að fjalla um málefni til að þau nái til allra en mikilvægast er að þjóðir deili upplýsingum og reynslu sín á milli og því eru málstofur og alþjóðafundir mikilvægir fyrir alla bæði litlu og stóru þjóðirnar og allt þar á milli.

Eftir þessar málstofur var komið að yfirferð fyrir allar málstofurnar og þegar því var lokið þá kynning á Ólympíuleikunum í London. Hilary Atkinson fór yfir praktísku hlutina og eins sýndi okkur aðeins inn í þann heim sem undirbúningur Ólympíuleikana er. Hilary er yfir öllum íþróttapakkanum fyrir þessa Ólympíuleika.

Jæja komið að hádegishléi og matur og klukkan er 12:50 (4:50 að íslenskum tíma). Verð að segja að það er veruleg áskorun að velja rétt hérna fyrir Austan. Ég labba iðulega 2-3 hringi í kringum borðin til að finna eitthvað sem er óhætt að setja ofan í sig eða maður þekki eitthvað. Fyrir valinu var þurr kjúklingur, lamb í karrí, kartöflustappa og ýmist meðlæti og svo auðvitað desert. Lambið stóð fyrir sínu en var heaví sterkt... vona að það valdi ekki óþarfa klósettferðum, en annars mjög gott. Kjúklingurinn var þurr og desertarnir einhvern veginn allt öðruvísi en ég er vön en melónurnar klikka ekki.

Verð að segi að austurlandar eru ferlega glysgjarnir... ég á örugglega eftir að slasa mig á öllum þessum speglum og vel fægðu álspegla-veggjum hérna þegar ég er „tilraun“ til að ganga í gegnum þá alveg óvart... sama hvort það er herbergið eða annars staðar. Speglar út um allt og maður finnur varla dyr og húna þar sem þetta speglast allt saman þvers og kurs og ég er búin að þramma inn í skúringakompuna þar sem ég fann bara ekki andskotans útganginn af salerninu. Talaði við Mervi vinkonu mína frá Svíþjóð um þetta vandamál og hún lendir í alveg sömu aðstæðum og ég... grípur í tóma hurðahúna hér og þar og sérstaklega á salernunum hihi... Kannski ágætt að hafa svona marga spegla í herberginu ákveðinn félagsskapur í því og ég hef það á tilfinningunni að hér sé fullt af fólki og spjalla þá bara við sjálfa mig þvers og kurs... held ég geti horft á mig úr 4 speglum samtímis.

Áfram með dagskrána... næst stóð valið á milli;
BWF Sponsorship – Going Beyond A-Boards eða
Player – Talent ID /Talent Development

Ég valdi Sponsorship og gestafyrirlesarar þar voru Terrence Koo framkvæmdastjóri ESG og Loke Poh Wong frá Badminton Ástralía. Verð að segja að þeir ollu mér pínu vonbrigðum og var fókusinn allur á stóra viðburði... en þeim til afsökunar þá var verulega þörf á hádegisblundinum eftir matinn hjá mér þannig að einbeitingin var kannski ekki alveg fullkomin.

Þá var komið að því að velja á milli;
New/social media eða
Membership

Þarna hef ég kannski valið vitlaust en það var nær ómögulegt að velja... báðar málstofurnar spennandi. Ég valdi Media þar sem var farið yfir „vinsældir“ fjölmiðla, new og social fjölmiðlar. Sjónvarp er vinsælast ennþá en netið er að vinna gífurlega á og er komið í 2 sætið í fjölmörgum löndum og er blaða umfjöllun á svipuðum stað og netið. Aftur var ég pínu fyrir vonbrigðum en skelli því líka á langan dag en kannski eitt sem allir þessir fyrirlestrar áttu sameiginlegt var uppsetning á glærum... of mikið af upplýsingum troðið á hverja glæru þannig að allt þetta rann saman í eitt.

Málstofunum lauk á tilsettum tíma eða um kl. 16:45 og einbeitingin alveg búin og tími á að vera smá heilalaus og fá sér einn bjór eða svo og mingla við liðið. Bjórarnir urðu 2 og mikið mingl og var setið í um 2 klst. og skipst á skoðunum, hugmyndum og málin rædd.

Næst var að huga að undirbúningsfundi með fulltrúum Evrópu en venjan er að hittast degi fyrir Alþjóðaþingið og fara yfir dagskrána og ræða einstök mál. Sem betur fer var sá fundur stuttur eða um 40 mín og klukkan orðin 20:40 og kvöldmaturinn eftir og enn meiri undirbúningur fyrir fyrirlesturinn minn á sunnudag. Batteríin kannski ekki alveg full hlaðin frekar svona tóm en tími fyrir enn meira spjall og aðeins meira öl.

Annars sé ég fram á næturvinnu... búið að panta mingl fundi hér og þar í kvöld og líklega verða það tannstönglarnir sem eiga lokahnykkinn á að klára undirbúning fyrir fyrirlesturinn.

Svona rétt í lokin þá finn ég verulega fyrir vinsældum eins og undanfarin ár mín hér í Austri... flugurnar elska mig og ber ég þess merki út um alla fætur. Gott í bili!


Dagur 1 rennur saman við dag 2 - ævintýri...

Ekkert gaman að þessum ferðalögum nema lenda í einhverjum ævintýrum. Eftir keyrslu úr Borgarnesinu góða einhvern tímann fyrir hádegi í gær miðvikudag var farið í loftið til Keflavíkur 13:15 og flugtími um 3 klst. Ansi windý rétt af stað en annars ljómandi fíntflug.

Grét svolítið yfir mynd sem ég horfði á á leiðinni og þá einhvern veginn fara taugarnar af stað og hugurinn festist hjá börnunum og fullt af hugsunum streyma í gegn. Einmitt í gær þá rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að byrja að fara í þessar ferðir mínar. Mér fannst alltaf jafn vont að fara og að koma heim, fékk samviskubit og snökkti svolítið af stað en var svo eins og litlu börnin og gleymdi þessu þegar komið var á áfangastað... og á leiðinni heim þá hvolfdist þetta yfir mig aftur allar tilfinningarnar, saknið og allt það. Var oft heltekin af samviskubiti yfir því að vera að skilja
ormana eftir heima en sem betur fer hefur aðeins dregið úr þessu en tilfellin dúkka upp endrum og sinnum.

Lenti um kl. 18:15 á dönskum tíma í Köben og smá tími til að rölta hring og kíkja í HM... engin reisa til DK án þess að kíkja í HM.


Því næst var að reyna að breyta um sæti þar sem ég hafði fengið úthlutað inni í miðju og fyrir þá sem ekki vita þá eru þetta 3+4+3 sætaraðir og glatað að vera ein á ferli og vera í miðju einhvers staðar. Á meðan að þessar elskur í inntjékkinu voru að garfa í mínum málum birtist Poul-Erik forseti Badminton Europe og var hann líka einn á ferð og tilvalið að reyna að krækja okkur í sæti
saman sem endaði svo með því að við vorum færð í „góð" sæti og höfðum nóg pláss, almennilegar ábreiður og almennilega lazy-boy. Eitthvað dróst nú að komast í loftið þar sem farangur einhvers sem var ekki með fullgildan passa var kominn um borð í vélina og þurfti að finna hann og fjarlægja en hann fannst auðvitað ekki og farið var í loftið amk 40 mín eftir áætlaða brottför eða um 21:40 að dönskum tíma. Flugtími var áætlaður 8 klst og 55 mín. Var alveg orðin
glorhungruð þarna og því máltíðin vel þegin í vélinni. Svo var bara að velja úr afþreyingu... horfði á 1 mynd og svo 2 aðrar með öðru auganu á milli sem við spjölluðum, ég dottaði, las eða leysti zudokur. Svona áður en ég fór að sofa alveg þá voru kvöldverkin tekin... þvo sér og tannbursta með fína burstanum á fínu inniskónum sem fylgja. Var vakin af djúpum svefni í morgunmat ca. 1:45 klst fyrir lendingu (rifjaðist upp fyrir mér að það er sífellt verið að bera í
mann mat, snakk og drykk og enginn friður til að slaka.

Peking tók á móti okkur sólrík og spennandi. Þegar lent var í Peking þá var orðinn ansi knappur tími til að ná fluginu til Wuhan sökum tafanna í Köben og fyrir algjöra rælni sá ég konu halda á blaði úr stílabók þar sem ritað var flugið mitt til Wuhan. Ég spjallaði aðeins við hana og hún var mjög stressuð yfir því að ég þyrfti að drífa mig til að geta náð fluginu. Mér fannst þetta kannski ekkert tiltöku mál þannig lagað 1 ½ tími í flug og ég búin að tjékka farangurinn minn inn alla leið ennnnn... nei nei það er ekki hægt þannig ég þurfti að drífa mig og fara í einhverja röð og hlaupa
þarna og fara á skrifstofu Air China og barasta líklega ekki náð þessu öllu saman nema við Poul-Erik komum okkur bara fyrir í innritunarröðinni og bara frekar slök. Eftir stutta stund kemur hún hlaupandi móð og másandi og tekur í handlegginn á mér og segir þú þarft að koma núna... og hún var alveg sveitt. Hún s.s. sleit mig úr röðinni og hljóp af stað sem þýddi auðvitað að ég legði
undir mig betri fæturnar og hljóp á eftir henni. Við fóru fram fyrir alls staðar og svo rétti hún mér blað þar sem voru allar upplýsingar um mig... „hérna þú átt þetta og þetta ert þú" svei mér þá ef skóstærðin var ekki þarna líka. Ef þú nærði ekki þessu flugi þá áttu sæti í þetta flug, (áætlað 6 tímum síðar) og þetta sagði hún mér á hlaupum. Hún var með heilan her í talstöðinni sem var alveg klár á því að Sigríður Bjarnadóttir væri á leiðinni og jafn og þétt fjölgaði aðstoðarfólkinu. Við þurftum að taka lest á milli til að sækja farangurinn og hún tjáði mér að það tæki 3 mínútur og svo stóð hún og reiknaði hvað við hefðum langan tíma á milli þess sem hún spjallaði við allt
aðstoðarfólkið.

Þó svo að ég hafi tjékkað farangurinn alla leið til Wuhan í Keflavík þá er það svo að það þarf að sækja hann og tjékka hann inn aftur þannig að næst lá leiðin á færibandið þar sem ég hafði 3 mínútur til að finna töskuna mína en þegar þarna var komið við sögu þá voru engar töskur farnar að koma í ljós. Vinkona mín var þarna alveg kófsveitt og sagði mér að velja að bíða eftir töskunni eða fara núna með fluginu mínu... úfff... valdi að taka flugið þannig að nú þurfti boarding passann og ég vissi ekki fyrr en hún var búin að rífa af mér vegabréfið og hlaupin af stað með hann til að ná í passann og á hlaupunum kallaði hún... þú færð auka 5 mín og verður að bíða akkúrat hér þegar ég kem til baka með passann. Þarna voru 2 aðstoðarmenn með mér að leita að töskunni og svo bara segir annar „now you have to leave"... og engin taska. Ljómandi!

Þá hófst næsta hlaup hjá okkur vinkonunum í gegnum nokkur hlið þar til við komum að tjékki þar sem þurfti að taka upp úr handtöskunni allt og gegnum lýsa mig og þarna yfirgaf aðstoðarkonan mín mig og óskaði mér góðrar ferðar og sagði að ég hefði 5 mín til að komast að hliðinu og þetta væri rosalega langur gangur og ég þyrfti að taka bíl og ef ég næði þessu ekki þá bara næsta flug. (Mátti engan veginn vera að þessari gegnum lýsingu og þarna voru gaddaskórnir komnir undir). Var svo ljómandi heppin að fá bíl strax þannig að við brunuðum eins og vindurinn allan ganginn og tókum meira að segja farþega upp í. Síðasti spölurinn voru 2 hæðir niður með rúllustigum og þar beið flugvélarrútan eftir mér og ég stökk inn og þá var brunað af stað. Safe... nema farangurinn. :S

Þegar maður býr á Íslandi og hefur fullan og auðveldan aðgang að nánast öllu áttar maður sig ekki alltaf svona einn tveir og þrír á því hvernig þetta er nú allt saman út í þessum stóra heimi. Ég var þess fullviss þar sem ég lenti í sama terminali og ég átti að fara frá að þetta væru bara gate hlið við hlið en aldeilis ekki. Rútan keyrði í ca. 8 mín á vegakerfi flugvallarins og ég sá vegi sem voru númeraðir 400 og eitthvað og 500 og eitthvað. En þrátt fyrir þetta allt þá var ég algjörlega afslöppuð og eftir að hafa lent í því að vera kyrrsett auka nótt í Frankfurt hérna eitt árið vegna vegabréfsvesenis og marg cancelluð vegna eldgosa og þurfa að ferðast í 44 tíma á áfangastað eins og í fyrra þá kippi ég mig ekki mikið upp við svona smámuni. 

Eftir 2ja tíma flug frá Peking til Wuhan þar sem ég varsú eina ljóshærða í fluginu tók við snúningar út af farangrinum og spjall við frekar slaka enskumælandi kínverja sem þýddi auðvitað að transportið mitt yfirgaf svæðið. Ekki var alveg eins sólríkt hér í Wuhan... gjörsamlega rigndi brenni og eldisteini og svakalegur raki og enskukunnátta af mjööög skornum skammti hjá starfsfólki. Þvílíkur munur á flugvöllum miðað við Peking. Næsta var að tylla sér og hinkra eftir að næsta flug lenti með fulltrúa í tengslum við badminton fundina... og viti menn næsti maður var Poul-Erik sem ég kvaddi á hlaupum í Peking þannig að hann náði mér aftur.

Ferðin frá flugvellinum tók ca. 30 mín og innritunin ríflega það þar sem ég var auðvitað ekki bókuð inn á hótelið og það nánast yfirfullt. Ég var heppin og fékk þetta fína risa herbergi með risa rúmi og sófasetti og ég veit ekki hvað og baðherbergið jaðrar við spa.

Nú er klukkan orðin 19:20 að kínversku tíma og ráð að sturta sig og taka hring um hótelið og bíða þess að ferðataskan skili sér á hótelið. Svo er bara að bora sér niður og undirbúa fyrirlesturinn og hvíla sig fyrir fyrirlestrana á morgun kl. 9 sjarp.






Kínaferð - dagur 1.

Jæja þá sit ég á Keflavíkurflugvelli og er að leggja upp í 19 tíma ferð til Wuhan í Kína þar sem ég mun dvelja fram yfir helgi á fundum og fyrirlestrum. Dagsformið er ekki alveg upp á sitt besta en félagarnir hiti, kvef og stífla fylgja mér af stað en ég vona að ég nái að hrista þá af mér fljótlega.


Hreyfing og aftur hreyfing

Háfslækjarhringurinn var farinn í liðinni viku á tveimur jafnfljótum og náði það alveg 1/2 maraþoni sú hreyfing. Í fyrsta sinn sem ég hleyp svona langt... í einu og verð að segja að þarna sigraði ég sjálfa mig. Bara fyrir ca. 1 ári þá var þetta fjarlægt en á áætlun að hlaupa einhvern tímann 1/2 maraþon... það bara gerðist ögn fyrr en búist var við. Eins og alls staðar annars staðar þá er fólk á hlaupum hér um allan bæ en fæstir hafa verið að hópa sig saman svo í fyrra þá gerði ég heiðarlega tilraun til þess að hópa þessu fólki saman á ákveðnum tímum en það gekk nú frekar upp og niður eða aðallega niður. Hins vegar var fundinn nýr tími á laugardögum og sá tími virðist henta flestum í að hlaupa í hóp. Einhverjir úr hópnum hafa hlaupið hið svokallaða Háfslækjarhringsuppstigningardagshlaup áður og fór stór hluti hópsins að stefna á hringinn þetta árið svo það ýtti mér í það að setja mér það takmark að hlaupa hringinn. Í undirbúningi var ýmislegt sem átti ekki að vera og munaði þá mestu um að hafa gengið í barndóm í badmintoninu og tekið smá keppnis sem endaði með Jumpers knee... s.s. einhverjum teyjum og bólgum á sinum sem ég hélt að ætlaði alllldrei að fara. Ekki búin að jafna mig á því enn en get vel hlaupið þó svo að ég þoli ansi lítinn snúning á hnénu.

Upprifjun - tiltektardagur - Kína

Jæja þá er að tjékka hvort maður kann þetta ennþá. Hef hugsað mér að rembast við að stikla á stóru endrum og eins hér og einhvern veginn hef ég þá tilfinningu að íþróttir eigi eftir að koma örlítið við sögu sem og daglegar uppákomur.

Það er gaman að segja frá því að í dag var hátíðlegur tiltektardagur í hestagirðingunni í alveg hreint dásemdarveðri. Þar voru fylltir einir 9 ruslapokar og eitthvað af stærra rusli líka og líkt og undanfarin ár var þetta rusl 99,9% í boði X hinu megin við götuna og nóg eftir. Til að taka Pollýönu vinkonu mína á þetta þá ber að þakka X fyrir allt súrefnið, veðurdásemdina og fuglasönginn sem sveif yfir okkur á meðan á verkefninu stóð. Næsta verkefni er að fá gröfu til að moka upp úr skurðinum (sem sést ekki lengur og búinn að breiða úr sér um móann)... orðinn fullur af sements- steypu-drullu sem hefur seytlað þarna niðureftir undanfarin ár. Nú ef fólk er æst í að komast í fuglasönginn þá er auðvelt að slaka einhverjum ruslapokum sem hægt er að tína í á meðan notið er og má endilega hafa samband við undirritaða. Ef svo óheppilega vildi til að ruslið kláraðist í hestagirðingunni þá er af nógu að taka allt um kring og yfirdrifið af fuglasöng.

Annars ber það hæst að á miðvikudaginn mun ég leggja hnött undir fót og heimsækja Kína í 3ja sinn og þetta skiptið er stefnan tekin á Wuhan. Líkt og áður er badminton viðfangsefnið og er ætlunin að skrásetja þessa ferð svona rétt til að gefa ykkur sníkpík á reisuna og hvað drífur á daga mína þarna fyrir austan. Sé ekki að það verði hægt að gera ferðinni skil á Facebook enda stranglega bannað og lokað fyrir Facebook, Twitter og Youtube í Kína... eða er það ekki annars ennþá...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband