Fimmtudagurinn 15. maí – Jakarta
28.5.2008 | 10:44
Svona til upplýsinga þá búa um 9 milljónir manna í Jakarta og um 23 milljónir á þéttbýlissvæðunum í kringum borgina. Borgin er tíunda fjölmennasta borg í heiminum og frá árinu 1960 hefur fólksfjölgunin farið úr 1,2 milljón í um 9 milljónir manna. Gífurlega umferð er um borgina allan sólarhringinn og er mengunin mjög mikil og hitastigið í kringum 33 - 37 gráður alla daga. Í gegnum Jakarta renna 13 ár og má segja að þær séu mishreinar eða frekar misóhreinar. Tímamismunur á milli Íslands og Indónesíu eru +7 tímar.
Við ákváðum að fara í fylgd Hans svíapressa" og syni hans Axel og skoða hverfi sem mælt hafði verið með fyrir okkur að skoða. Eitt af öryggisatriðunum sem var tíundað við okkur var að við stelpurnar skyldum hafa karlmann/menn með í för svona til öryggis.
Við tókum hraðstrætóinn í gegnum borgina og fórum út á endastöð. Hraðstrætóinn hefur ekki verið lengi í Jakarta en sökum mikillar fólksfjölgunar undanfarin ár þá hafa þeir varla haft við í almenningssamgöngumálum og árið 2004 tóku þeir eina akrein undir hraðstrætóinn en á þeirri akrein fara bara þessir strætóar um. Á fyrstu skrefum okkar um borgina þá leið mér kannski eins og gulu hættunni" eða endurskinsmerki. Það bókstaflega horfðu allir á okkur og það að ég sé skyndilega komin yfir meðalhæð, þ.e. há og ljóshærð fæ ég líklega ekki að upplifa aftur nema á þessum slóðum.
Þegar komið var á endastöð tók við ganga í átt að hverfinu Manga Dua". Þar átti að vera áhugavert að litast um og einnig áttu að vera hellingur af ódýrum verslunarmiðstöðum þar. Eftir ótrúlegt labb svo ekki sé meira sagt þá fundum við verslunarmiðstöð og kíktum þar inn. Þar hefði verið fínt að vera bara einn og dunda sér við að skoða finna ýmislegt til í marga klukkutíma og verðið var ótrúlegt. Sökum ferðaþreytu og hitabreytinga þá stöldruðum við ekki mikið við þar en það sem var áhugaverðast við þessa útsýnisferð okkar var lifnaðarhættir og fátæktin!
Á göngu okkur til og frá Manga Dua" labbaði ég í gegnum alveg nýjan heim. Urmull af alls konar faratækjum, vespum, þríhjólum, bíladruslur o.s.frv. og umferðin alveg svakaleg, bæði mikið af faratækjum á ferðinni og á götunni voru kannski 3 merktar akreinar en það var ekki virt viðlits og keyrðu menn og konur jafnvel í 5-6 röðum. Ekki bætti það að á götunni eða við götuna þá gengum við, Evrópski hópurinn, og það eitt og sér var gífurleg slysahætta þar sem ég held að ljóshærðar háar" konur og háir evrópskir menn séu ekki daglegt brauð á þessu svæði og allir snéru sig úr hálslið í hvínandi botni á faratækjunum. Þarna voru nánast engar gangstéttar, rusl og sorp lá þarna út um allt. Við götuna voru einhvers konar skurðir sem voru fullir af ógeði og lykt. Olíupollar voru í köntunum og lítil hamingjusöm börn á tánum hjóluðu í kringum okkur á einhverjum görmum yfir olíupollana við alla þessa umferð og heimafólk bauð upp á allskonar matarkynis sem hefði bara leitt til sjúkrahúslegu. Híbýlin voru á mörgum stöðum bárujárnsplötur sem var búið að púsla saman og sáum við á leið okkar að sorpið var sett í poka og bundið fyrir og hent út í á. Það var s.s. Gámaþjónusta Jakarta.
Við enduðum svo daginn á að kíkja í eina af flottari verslunarmiðstöðum á svæðinu Plaza Indonesia" sem er staðsett í miðborginni og fengum okkur dýrindis snarl. Þar gat að líta allar merkjavörur í heiminum held ég, Armani, Dolce, Yves, Gucci og hvað þetta heitir nú allt saman. Inn á milli voru svo ein og ein búð sem við könnuðumst við s.s. Debenhams, Zara o.fl.
Stefnan var svo tekin á höllina til að fylgjast með undanúrslitum í Uber cup sem er s.s. kvenna keppnin þar sem heimamenn Indónesar áttu kappi við Þýskaland. Á leið okkar í gegnum hótelið fyrir höllina var okkur svo nappað á sellufund" þar sem farið var yfir nokkur atriði í badmintonheiminum ásamt því að taka stöðuna fyrir ársþingið en eins og kemur fram hér síðar þá var það ekki alveg viðburðasnautt.
Við náðum svo restinni af leikjunum hjá stelpunum síðar um kvöldið og ég verð að segja að gæsahúðin gýs upp aftur og aftur við tilhugsunina. Full höll af fólki, hrópandi, syngjandi, klappandi og allt það. Tugir af ljósmyndurum og upptökumönnum og vélbúnaði eftir því og stemmingin æðisleg. Ég gleymdi kannski að koma að því að Indónesar voru með sér sjónvarpsstöð fyrir keppnina á meðan að á henni stóð og t.a.m. þegar við lentum á flugvellinum þá voru tvö sjónvörp við inn-tékkið og annað sýndi eingöngu badminton.
Skora bara á sjónvarpstöðvarnar hér að taka sér þetta til fyrirmyndar og setja af stað eina stöð með öllu sporti til að byrja með. Við getum svo tekið það áfram í hvað 27 stöðvar í framtíðinni hverja fyrir hvert sport!!!
Sigg
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.