Mánudagurinn 12. maí 2008 - fyrsti dagur. Keflavík - Frankfurt.
20.5.2008 | 10:56
Vaknað um 4:40 og farið út á Keflavíkurflugvöll. Endastöð er Jakarta með viðkomu í Frankfurt og Singapúr á leiðinni.
Við bjuggumst við örtröð á vellinum þar sem því var hvíslað að okkur að það væru óvenju margir farþegar á útleið en við urðum ekki varar við eitthvað óvenjulegt þar. Við áttum flug til Frankfurt kl. 7:25 og áttum að eiga þar gott stopp áður en haldið var til Jakarta. Flugið gekk vel og vorum við lentar um kl. 13 á staðartíma í Frankfurt, s.s. ca. 3,5 tími í loftinu. Veðrið var frábært og tókum við rölt í bæinn og ætluðum að kíkja í búðir eins og konum er lag til en allt var þá lokað vegna annars í Hvítasunnu. Þá var ekkert að gera nema að rölta niður að ánni Main og spókuðum við okkur þar í sólskini og fíneríi. Kíktum aðeins í gamla bæinn í leiðinni og var hann fullur af fólki. Um kl. 19 vorum við svo komnar aftur á flugvöllin til að tékka okkur inn en þá kom það upp úr dúrnum að flugpöntunin hafði skolast til og sátum við á endanum uppi með auka nótt í Frankfurt og ekki kátar með það. Fengum ágætis hótel hér aðeins utan við bæinn og þar með var kominn verslunardagur í Frankfurt. Þá var tekin vinnuskorpa á hótelinu rétt fyrir svefninn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.