Rest af degi 3 og fyrripartur dagur 4

Þegar ég skildi við ykkur í gær þá var farið að halla verulega á seinni hálfleikinn af deginum en eins og svo oft áður var hann framlengdur endalaust. Ótrúlega gaman að hitta fólk alls staðar úr heiminum með misjöfn vandamál en allir eiga það sameiginlegt að elska og lifa fyrir badminton. Kenýa, Barbados, Serbía, Svíþjóð, Danmörk, Slóvakía, Ástralía og barasta öll hin löndin. Svo fræðist maður um lífið og tilveruna í þessum löndum líka og hér eru nokkrir menn sem eiga nokkrar konur og hreinlega vantar fleiri og svo eru aðrir sem eiga konur sem eru nánast bara lokaðar inni og allt þar á milli.

Líklega fer best á því að gærkvöldið fari ekki á prent enda langt frá því að vera prenthæft en ég gæti svo sem lekið einhverju í góðu tómi svona einn á einn en líklega er þetta eftirminnilegasta og ótrúlegasta kvöldstund sem ég hef upplifað og hef ég þó upplifað ýmislegt skemmtilegt og spennandi í ferðum mínum.

Eftir nánast mínus svefn var sturtað, andlitið sett upp og ársþing Alþjóða Badmintonsambandsins næst á dagskrá og hófst kl. 10. Þetta var frekar lítið þing en fulltrúar 97 þjóða voru viðstaddir ásamt öðrum gestum. Fundurinn fór fram á hefðbundinn hátt en sú breyting varð á þetta árið að þingið fór fram á 5 tungumálum. Mældist þetta vel fyrir og er alveg ótrúlega margir sem tala og skilja ekki ensku þannig að þetta gefur þeim tækifæri á að tjá sig og skilja hvað gengur á.

Eftir þingið var boðið í hádegisverð sem stóð til kl. 15 en þá var kominn tími á að fara í höllina og kíkja á úrslitin nú eða slaka á uppi á herbergi og horfa á úrslitin þar. Ég valdi síðari kostinn þar sem ég átti stefnumót við nokkra aðila eftir fundinn og nú eru einungis 2 örfundir eftir það sem eftir er dagsins og klukkan nú 18:30 og framsaga mín í fyrramálið. Verður án efa frábært og forréttindi að fá að taka þátt í þessu aftur með öllu þessu frábæra fólki.

Jæja þarf að klára daginn og líklega reyna að borða eitthvað og svo er möguleiki á að ég komist aðeins út af hótelinu í kvöld eða amk eftir hádegi á morgun en ég hef ekki rekið tærnar út síðan ég kom á fimmtudaginn sem er auðvitað algjör synd fyrir svona langt ferðalag.

Helv... flugurnar eru brjálaðar í mig og bætist í hraunið á fótum mjög ört. Skileddaekki þar sem ég hef varla séð eina einustu pöddu hérna og ekki einu sinni farið út af hótelinu en greinilega hef ég eitthvað spennandi handa þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband