Dagur 3 - Málstofur... varúð langt blogg
25.5.2012 | 13:55
Farangurinn skilaði sér um kl. 23:00 í gærkvöldi og var mér verulega létt og var farin að bíða eftir að komast úr ferða-svita fötunum eftir öll hlaupin á flugvellinum í Peking. Sem betur fer hef ég aldrei lent í vandræðum með svefn í ferðalögum mínum hingað til Asíu og það var engin breyting á því núna. Ég lagðist á koddann ca. 23:15 (15:15 að íslenskum tíma) með ræmu í tölvunni og man alls ekkert eftir því að hafa séð 1 mínútu af henni. Rankaði við mér einhvern tímann klukkustund síðar og lokaði og slökkti og hélt áfram að sofa. Vaknaði reyndar í kringum 4 leytið leit á klukkuna og lokaði aftur augunum og svaf þangað til vekjarinn vakti mig kl. 7 (23 að íslenskum tíma). Sturta, andlitið sett upp og komin í morgunmat 8:15 og ánægjulegt að hitta marga úr badmintonfjölskyldunni þar...(svona eins og að koma heim ef þið náið tilfinningunni).
Fyrst málstofan hófst kl. 9 á 2. hæð og gestafyrirlesari þar var Chris Guinness forstjóri IMG Media í Asíu sem er að ég held stærsta fyrirtæki í þessum bransa í heiminum. Chris hefur yfir umsjón með öllu áætlanagerð og daglegum rekstri fyrirtækissins. Öll viðskipti sem viðkoma sjónvarpi og fjölmiðlum fara í gegnum hann.
Chris fór yfri markaðssetningu, mikilvægis að hafa gott vörumerki og margt fleira. Það sem stóð upp úr af því sem hann sagði hvað það er mikilvægt að hafa vörumerki fyrir hvern styrkleika móta og að tengja og kynna grasrótinni þessi vörumerki/mót. Það þarf ekki allt að snúast um toppinn ef ekki er hugsað um lægri stigin verða efri stig móta lítið sterkari en þau eru í dag. Alltaf spennandi að heyra um markaðsmálin en oft erfitt að finna réttu leiðina. Hef áður setið nokkra fyrirlestra um markaðsmál badminton og alltof oft er einblýnt á toppinn þ.e. sterkustu mótin og bestu spilarana. Í badmintonheiminum eru fáar þjóðir sem eru þarna en örugglega 90% annarra þjóða eru í basli með markaðssetningu á badminton í sínu landi.
Næst var að velja úr;
Events Strategy 2012-2016
Development Strategy 2012-2016
Olympics Strategy 2012-2016
Para-Badminton Strategy 2016
... og ég valdi fræðslu- og útbreiðslu (Development) málstofuna þar sem David Cabello sem er formaður fræðslunefndar Alþjóða Badmintonsambandsins (BWF) og forseti spænska badmintonsambandsins fór yfir stöðuna en heilmikið hefur gerst í útbreiðslumálum frá því að hann kom inn til BWF. M.a. er búið að gera áætlun í fræðslu- og útbreiðslumálum sem var ekki fyrir hendi árið 2008, búið er að gera fræðslu og kennsluefni fyrir kennara í skólum og nefnist það verkefni „Shuttle Time“ en hugmyndin er að gera badminton skólaíþrótt nr. 1 í heiminum. Einnig er búið að gefa út kennsluefni fyrir þjálfara og leiðbeinendur og er stöðugt verið að endurmeta og tekið við athugasemdum.
Strax er farið að bera á árangri og sem dæmi þá fóru starfsmenn BWF til Marokkó og héldu „Shuttle time“ námskeið þar fyrir þjálfara og leiðbeinendur. Fyrir námskeiðið vissu fæstir hvað badminton var eða allt að því, ekki var hægt að kaupa spaða og áhöld fyrir badminton og engin þekking eða áhugi hjá stjórnmálafólki og lítill áhugi eða kannski lítil þekking hjá þeirra ÍSÍ. Staðan núna er að allir eru að tala um badminton, allir eru að spila badminton í skólum, allir vilja eignast spaða og nú er hægt að kaupa spaða og verið að skoða hvort hægt sé að framleiða spaða í Marokkó. Verður gaman að sjá tölur á næstunni yfir iðkendaaukningu.
Staða og aðstaða til að spila badminton er mjög mismunandi milli landa, heimsálfa og er oft erfitt að fjalla um málefni til að þau nái til allra en mikilvægast er að þjóðir deili upplýsingum og reynslu sín á milli og því eru málstofur og alþjóðafundir mikilvægir fyrir alla bæði litlu og stóru þjóðirnar og allt þar á milli.
Eftir þessar málstofur var komið að yfirferð fyrir allar málstofurnar og þegar því var lokið þá kynning á Ólympíuleikunum í London. Hilary Atkinson fór yfir praktísku hlutina og eins sýndi okkur aðeins inn í þann heim sem undirbúningur Ólympíuleikana er. Hilary er yfir öllum íþróttapakkanum fyrir þessa Ólympíuleika.
Jæja komið að hádegishléi og matur og klukkan er 12:50 (4:50 að íslenskum tíma). Verð að segja að það er veruleg áskorun að velja rétt hérna fyrir Austan. Ég labba iðulega 2-3 hringi í kringum borðin til að finna eitthvað sem er óhætt að setja ofan í sig eða maður þekki eitthvað. Fyrir valinu var þurr kjúklingur, lamb í karrí, kartöflustappa og ýmist meðlæti og svo auðvitað desert. Lambið stóð fyrir sínu en var heaví sterkt... vona að það valdi ekki óþarfa klósettferðum, en annars mjög gott. Kjúklingurinn var þurr og desertarnir einhvern veginn allt öðruvísi en ég er vön en melónurnar klikka ekki.
Verð að segi að austurlandar eru ferlega glysgjarnir... ég á örugglega eftir að slasa mig á öllum þessum speglum og vel fægðu álspegla-veggjum hérna þegar ég er „tilraun“ til að ganga í gegnum þá alveg óvart... sama hvort það er herbergið eða annars staðar. Speglar út um allt og maður finnur varla dyr og húna þar sem þetta speglast allt saman þvers og kurs og ég er búin að þramma inn í skúringakompuna þar sem ég fann bara ekki andskotans útganginn af salerninu. Talaði við Mervi vinkonu mína frá Svíþjóð um þetta vandamál og hún lendir í alveg sömu aðstæðum og ég... grípur í tóma hurðahúna hér og þar og sérstaklega á salernunum hihi... Kannski ágætt að hafa svona marga spegla í herberginu ákveðinn félagsskapur í því og ég hef það á tilfinningunni að hér sé fullt af fólki og spjalla þá bara við sjálfa mig þvers og kurs... held ég geti horft á mig úr 4 speglum samtímis.
Áfram með dagskrána... næst stóð valið á milli;
BWF Sponsorship – Going Beyond A-Boards eða
Player – Talent ID /Talent Development
Ég valdi Sponsorship og gestafyrirlesarar þar voru Terrence Koo framkvæmdastjóri ESG og Loke Poh Wong frá Badminton Ástralía. Verð að segja að þeir ollu mér pínu vonbrigðum og var fókusinn allur á stóra viðburði... en þeim til afsökunar þá var verulega þörf á hádegisblundinum eftir matinn hjá mér þannig að einbeitingin var kannski ekki alveg fullkomin.
Þá var komið að því að velja á milli;
New/social media eða
Membership
Þarna hef ég kannski valið vitlaust en það var nær ómögulegt að velja... báðar málstofurnar spennandi. Ég valdi Media þar sem var farið yfir „vinsældir“ fjölmiðla, new og social fjölmiðlar. Sjónvarp er vinsælast ennþá en netið er að vinna gífurlega á og er komið í 2 sætið í fjölmörgum löndum og er blaða umfjöllun á svipuðum stað og netið. Aftur var ég pínu fyrir vonbrigðum en skelli því líka á langan dag en kannski eitt sem allir þessir fyrirlestrar áttu sameiginlegt var uppsetning á glærum... of mikið af upplýsingum troðið á hverja glæru þannig að allt þetta rann saman í eitt.
Málstofunum lauk á tilsettum tíma eða um kl. 16:45 og einbeitingin alveg búin og tími á að vera smá heilalaus og fá sér einn bjór eða svo og mingla við liðið. Bjórarnir urðu 2 og mikið mingl og var setið í um 2 klst. og skipst á skoðunum, hugmyndum og málin rædd.
Næst var að huga að undirbúningsfundi með fulltrúum Evrópu en venjan er að hittast degi fyrir Alþjóðaþingið og fara yfir dagskrána og ræða einstök mál. Sem betur fer var sá fundur stuttur eða um 40 mín og klukkan orðin 20:40 og kvöldmaturinn eftir og enn meiri undirbúningur fyrir fyrirlesturinn minn á sunnudag. Batteríin kannski ekki alveg full hlaðin frekar svona tóm en tími fyrir enn meira spjall og aðeins meira öl.
Annars sé ég fram á næturvinnu... búið að panta mingl fundi hér og þar í kvöld og líklega verða það tannstönglarnir sem eiga lokahnykkinn á að klára undirbúning fyrir fyrirlesturinn.
Svona rétt í lokin þá finn ég verulega fyrir vinsældum eins og undanfarin ár mín hér í Austri... flugurnar elska mig og ber ég þess merki út um alla fætur. Gott í bili!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.