Upprifjun - tiltektardagur - Kína
20.5.2012 | 01:23
Jæja þá er að tjékka hvort maður kann þetta ennþá. Hef hugsað mér að rembast við að stikla á stóru endrum og eins hér og einhvern veginn hef ég þá tilfinningu að íþróttir eigi eftir að koma örlítið við sögu sem og daglegar uppákomur.
Það er gaman að segja frá því að í dag var hátíðlegur tiltektardagur í hestagirðingunni í alveg hreint dásemdarveðri. Þar voru fylltir einir 9 ruslapokar og eitthvað af stærra rusli líka og líkt og undanfarin ár var þetta rusl 99,9% í boði X hinu megin við götuna og nóg eftir. Til að taka Pollýönu vinkonu mína á þetta þá ber að þakka X fyrir allt súrefnið, veðurdásemdina og fuglasönginn sem sveif yfir okkur á meðan á verkefninu stóð. Næsta verkefni er að fá gröfu til að moka upp úr skurðinum (sem sést ekki lengur og búinn að breiða úr sér um móann)... orðinn fullur af sements- steypu-drullu sem hefur seytlað þarna niðureftir undanfarin ár. Nú ef fólk er æst í að komast í fuglasönginn þá er auðvelt að slaka einhverjum ruslapokum sem hægt er að tína í á meðan notið er og má endilega hafa samband við undirritaða. Ef svo óheppilega vildi til að ruslið kláraðist í hestagirðingunni þá er af nógu að taka allt um kring og yfirdrifið af fuglasöng.
Annars ber það hæst að á miðvikudaginn mun ég leggja hnött undir fót og heimsækja Kína í 3ja sinn og þetta skiptið er stefnan tekin á Wuhan. Líkt og áður er badminton viðfangsefnið og er ætlunin að skrásetja þessa ferð svona rétt til að gefa ykkur sníkpík á reisuna og hvað drífur á daga mína þarna fyrir austan. Sé ekki að það verði hægt að gera ferðinni skil á Facebook enda stranglega bannað og lokað fyrir Facebook, Twitter og Youtube í Kína... eða er það ekki annars ennþá...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.